140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:44]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Íslenskur sjávarútvegur hefur verið skattlagður umfram aðrar atvinnugreinar lengi. Ég hef farið yfir það í stuttu máli í ræðu áður hvernig íslenskur sjávarútvegur var skattlagður sérstaklega á þeim árum sem við höfum verið að ná fram hagræðingu í greininni, öfugt við það sem gerist í löndum Evrópusambandsins núna, við úreldingu fiskiskipa og við að reyna að fækka í fiskiskipaflotanum. Við skattlögðum íslenskan sjávarútveg og hann stóð þannig sjálfur undir þeim framkvæmdum en það átti fyrst og fremst við um stærri útgerðir landsins og kom ekki eins mikið við smábáta- eða trilluútgerðir.

Ekki eru mörg ár síðan hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði í ræðu að tilhneiging stjórnvalda til að hækka skattstofna sem væru einu sinni komnir á vera vel þekkta og að sú hætta yrði fyrir hendi varðandi veiðileyfagjald. Og þá yrði greinin síðri kostur fyrir fjárfesta og þá yrðu til hvatar til að hækka hann enn frekar. Þessi sýn hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur algerlega gengið eftir. Við erum að horfa á það að eitthvað sem var sem skattur, notaður í hagræðingarskyni í útgerðinni, greiddi fyrir þeim breytingum og gerði greinina verðmætari, var síðan þegar komið var að ákveðnum tímamörkum í þeirri sögu breytt yfir í auðlindagjald. Menn voru sammála um að greinin mundi þá greiða gjald fyrir aðgang að auðlindinni, hóflegt gjald. Þetta hefur svo verið að þróast og hefði verið eðlilegt að láta þróast áfram eftir því hvernig greininni vegnaði á hverjum tíma.

Það er því alveg með ólíkindum að mönnum detti það í hug að núna sé allt í einu tímabært að taka skatt af útgerðinni, veiðiskatt upp á allt að 25 milljarða, eins og dæmið leit út. Menn hafa reyndar lækkað það gjald og horfa núna á 15 milljarða. Það er ekki nema innan við hálft ár síðan bent var á í skýrslu sem kom út á vegum ríkisstjórnarinnar að sjávarútvegurinn gæti greitt kannski í kringum 10 milljarða miðað við núverandi aðstæður. Á sex mánuðum gat mönnum dottið það í hug að hægt væri að hækka það rúmlega tvöfalt, upp í 25 milljarða. Þau orð sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði um þetta á sínum tíma hafa sannarlega reynst rétt.

Þá veltir maður því fyrir sér, virðulegi forseti, hver þróunin í þessu verður þegar um einhvern óseðjandi ríkissjóð er að ræða. Í höndum ríkisstjórnar sem neitar að fara, við getum sagt þær augljósu leiðir sem liggja fyrir okkur varðandi eflingu tekna í ríkissjóð með því að auka atvinnustarfsemi, eyða atvinnuleysi, stuðla að verðmætasköpun, auka útflutningsverðmæti — ríkisstjórnin vill það ekki þó að tækifærin liggi fyrir fótum okkar. Hvert horfir þá þessi óseðjandi ríkisstjórn í skattlagningu næst? Hvað verður næst þegar búið verður að taka sjávarútveginn í slíka meðferð? Er það ferðaþjónustan sem mikið er hampað í dag, því að mikill vöxtur er í ferðaþjónustunni? Hvenær fara að heyrast þær raddir hjá hæstv. ríkisstjórn að ferðaþjónustan sé að nota auðlindir landsins? Nú sé komið að henni að fara að greiða auðlindagjald. Það er ekki erfitt að innheimta auðlindagjald af ferðaþjónustunni. Það gerum við bara með því að leggja á einhverja farmiðaskatta eða gistináttgjöld, nefskatt á alla ferðamenn sem koma til landsins. Og menn geta reiknað sig upp í það að í þeirri vaxandi arðbæru grein gætu menn farið að greiða meiri skatt, það væri næsta skrefið.

Við getum horft til orkufreks iðnaðar. Við getum horft til þeirrar umræðu sem hér hefur verið um að stóriðjufyrirtækin eigi að borga meiri skatt. Samið var sérstaklega við þau um greiðslu viðbótarskatts þegar hrunið varð, fyrir fram greiddur skattur. Nú á jafnvel að framlengja það. Það eru hugmyndir manna.

Ef við rifjum upp ummæli fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, fyrir ekki svo löngu síðan, kannski ári eða svo, þegar hún sagði: Nú eru stórir hlutir að gerast í Þingeyjarsýslum. Nú verða Húsvíkingar og nærsveitarmenn að undirbúa sig undir stórkostlegt átak í atvinnumálum, miklar breytingar, og nefndi haustið síðasta í þeim efnum. Það hefur ekki gerst. Af hverju gerist ekkert fyrir norðan? Af hverju er svona mikil deyfð yfir því að klára einhver verkefni, koma verkefnum þar í gang? Getur verið að Landsvirkjun sé að reyna að fá of mikið fyrir orkuna, það sé þess vegna? Eru það mögulega skilaboð frá ríkisstjórninni og það gangi ekki upp þess vegna? Eða getur verið að öll þessi óvissa í kringum erlenda og innlenda fjárfestingu hvað varðar fyrirtækjarekstur í landinu valdi því að menn haldi að sér höndum við að koma hingað til landsins og vinna úr þeim auðlindum sem við getum boðið? Getur það verið? Er þetta farið að hitta okkur fyrir svona alvarlega þegar við sjáum að það er ekkert að gerast?

Það verður að snúa af leið. Það sjá allir sem velta þessu fyrir sér að þessi leið gengur ekki. Auðvitað sjáum við öll þegar við skoðum þessa fyrirhuguðu skattlagningu á sjávarútveginn að þeim peningum sem þar eru og á að taka umfram það sem eðlilegt getur talist verður miklu betur varið í fjárfestingar í þessari grunnatvinnugrein þjóðarinnar. Þeir eru miklu öruggari þar til að skapa verðmæti, útflutningsverðmæti og atvinnutækifæri heldur en í höndum ríkisins sem vill nota þá í að grænka fyrirtæki, sem er alveg sjálfsagt mál en er svona eitthvað sem við getum farið að leyfa okkur þegar við höfum nóg á milli handanna.

Virðulegi forseti. Þessi leið verður aldrei farin á enda, þetta endar aldrei hjá ríkisstjórn sem hefur enga aðra sýn á framtíðina en skattpína það sem er í kringum hana, hvort sem það eru einstaklingar og heimili, fyrirtæki eða almennur atvinnurekstur. Þetta verður að snúast um önnur grundvallaratriði, þ.e. að auka verðmætin, auka verðmætasköpunina, hvatann til að gera eitthvað. Þá fáum við þetta streymi í gang. Það eiga menn sem hafa unnið mikið í grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, menn sem úr sveit og sjávarbyggðum, að þekkja best. Þannig er þetta.