140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í starfshópi um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða frá árinu 2010 segir, með leyfi forseta:

„Meginniðurstaða endurskoðunarnefndarinnar kemur fram í eftirfarandi orðum í niðurstöðukafla skýrslunnar: „Meiri hluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr.““

Síðar segir í bókuninni:

„Þessi leið sem niðurstaða hefur orðið um í nefndinni er í samræmi við leikreglur þær sem gilda munu við nýtingu annarra auðlinda, þ.e. leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu íslenska ríkisins. Þar er gert ráð fyrir nýtingarsamningum til langs tíma með endurnýjunarákvæðum.“

Síðar í sömu bókun segir, með leyfi forseta:

„Nú þegar þverpólitísk endurskoðunarnefnd, skipuð fulltrúum hagsmunasamtaka í sjávarútvegi, hefur skilað af sér nær samhljóða áliti um meginatriði fiskveiðistjórnarinnar, er lögð mikil ábyrgð á herðar ríkisstjórnarinnar. Það verður í verkahring hennar að leggja fram frumvarp sem byggir á niðurstöðu nefndarinnar. Það frumvarp verður vitaskuld að fylgja þeirri meginlínu sem nefndin markaði og hér hefur verið lýst.“

Að lokum segir í áliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar:

„Undirritaður fagnar því að niðurstaða sé fengin í erfiðu deilumáli. Til þess að það tækist þurftu allir að sýna mikinn samstarfsvilja og sveigja frá ýtrustu sjónarmiðum. Þessa niðurstöðu eiga stjórnvöld að virða og standa að því samkomulagi sem náðist með þessum hætti í nefndinni.“

Á þessu byggist þetta frumvarp sem við erum að tala um í dag, þeirri meginlínu sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lagði til og krafðist þess að yrði farið eftir. Eftir því hefur verið farið og ég spyr hv. þm. Jón Gunnarsson hvort hann geti verið mér sammála um það.