140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef áður bent hæstv. forseta á mikilvægi þess að sú vinna sem við vinnum með því að fara yfir frumvörp ríkisstjórnarinnar og ræða kosti þeirra og galla, þótt kostirnir séu reyndar ekki mjög margir, skili árangri. Það er til lítils að láta þingmenn ræða málin út í tómið án þess að þeir hv. stjórnarliðar sem að þessu standa heyri í okkur, taki þátt í umræðunni og rökræði frumvörpin. Sérstaklega lagði hæstv. utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að þingið bætti frumvörpin með umræðum í þingsal. Hæstv. utanríkisráðherra taldi það nauðsynlegt. Hæstv. utanríkisráðherra hefur því miður misst af umræðunni það sem af er kvöldi. Því vil ég biðja formlega um það, virðulegur forseti, að hæstv. utanríkisráðherra verði kallaður á fundinn sem og að sjálfsögðu hæstv. forsætisráðherra.