140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég hef reyndar áður sagt það í þessum ræðustól að vegna þess hversu málið var illa undirbúið þegar það kom hingað inn í þingið og í ljósi þess hversu miklar breytingar er lagt til að gera á því og í ljósi mikilvægis málsins, sé rétt að gera hlé á umræðunni, nefndin taki málið til sín og sendi það út til umsagnar. Almennt mundi ég ekki mæla með þessu, það væri nóg að gera það á milli 2. og 3. umr., en sökum mikilvægis þessa máls og sökum þess hversu illa það var undirbúið og illa staðið að því hvernig það var lagt fram í þinginu, held ég að það sé skynsamlegt að gera þetta svona. Þá getum við tekið fyrir önnur mál á meðan og reynt að grynnka eitthvað á málastaflanum á meðan til þess bærir sérfræðingar og kunnáttumenn um þessi mál gefa umsögn um þær breytingar sem nú er verið að leggja til. Þá er hægt að halda áfram að ræða málið og (Forseti hringir.) síðan fer það aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. Þetta getum við gert þannig að einhver sómi verði að meðferð málsins.