140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom þarna inn á mjög alvarlegt mál sem er staðan í Evrópu. Grikkland var lítið í fréttum í síðustu viku en núna heyrum við fréttir af Spáni. Það er búist við því að um helgina verði gerðar verulegar ráðstafanir í Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Menn treysta á að Þýskaland borgi og borgi en þegar kemur að því að þýskir kjósendur og þýskir stjórnmálamenn treysta sér ekki lengur til að borga þessi ósköp sem eru orðnar alveg gífurlegar upphæðir getur eitthvað slæmt gerst. Í öllu falli held ég að þetta muni leiða til verri lífskjara í Evrópusambandinu. Eins og hv. þingmaður gat um, og ég reyndar líka í fyrri ræðu minni, hefur sjávarútveginum tekist að koma fiskinum upp í hágæðamatvöru, dýra matvöru, og það fyrsta sem menn spara við sig þegar kreppir að og skortur verður á heimilinu eru ferðalög, dýr matur, það að fara út að borða og annað slíkt. Fiskurinn íslenski er seldur mikið á matsölustöðum, dýr matur, og það er viðbúið að menn þurfi að lækka verulega verðið á honum.

Til viðbótar kemur svo ferðaþjónustan sem hugsanlega kann að líða fyrir það líka ef samdráttur verður í lífskjörum í Evrópu. Ferðalög eru eitt af því fyrsta sem menn skera niður og áliðnaðurinn kann líka að líða fyrir eftirspurnarþurrð þannig að nú standa öll spjót á útflutningsgreinum Íslands eins og annars staðar í heiminum. Ég held að það sé mjög brýnt núna að búa heimilin undir það og leysa vanda heimilanna þannig að þau standi betur að vígi til að ráða við þessar byrðar.