140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, íslenskur fiskur er almennt seldur á háu verði. Ég nefndi það að fiskur almennt væri dýr matvara en það á sérstaklega við um íslenskan fisk. Ég sá nýlega samanburð á fiskverði á mörkuðum eftir upprunalandi og þar var Ísland í langflestum tilvikum langsamlega efst. Íslenskur fiskur var langdýrastur. Það er meðal annars afleiðing af því fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur verið komið hér á, það hefur gert íslenskum fyrirtækjum kleift að fara í mikla markaðssókn og vinna vöruna á sem hagkvæmastan og skynsamlegastan hátt þannig að úr verði gæðavara.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, líklega um helgina, á morgun eða hinn, er gert ráð fyrir að Spánverjar muni formlega leita eftir aðstoð frá Evrópusambandinu til að halda bankakerfi sínu á floti. Það getur verið atburður sem setur af stað skriðu. Það þarf ekki mikið til eins og ástandið er núna. (Forseti hringir.) Er þá ekki rétt að hafa þessar aðstæður í huga þegar menn eru að fást við (Forseti hringir.) undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar?