140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú kem ég hingað í fimmta sinn í kvöld og spyr hæstv. forseta hvort möguleiki sé að fá upplýsingar um það hversu lengi þessi fundur á að standa. Forseti hlýtur að sjá hversu fjarstæðukennt það er að taka klukkustund fyrir klukkustund í umræðu um miðja nótt um málefni sem snertir undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar.

Ef forseti ætlar að taka áskorun sem lögð var fram áðan um að láta þingfundi renna saman þætti mér vænt um að fá að vita það vegna þess að þá gætum við kannski hallað okkur og verið viðbúin einhverju vaktaplani. Mér þykir það samt ólíklegt vegna þess að það er ekki það vinnulag sem tíðkast hér. (Forseti hringir.) Ég veit það í ljósi þess að við höfum farið í gegnum (Forseti hringir.) mikla skoðun á þingstörfum, ég og hæstv. forseti, en við erum saman í nefnd sem er að endurskoða þingsköpin og þar stendur upp úr að öllum þingmönnum finnst að hér þurfi að bæta vinnubrögðin. (Forseti hringir.) Finnst frú forseta þetta vera dæmi um bætt vinnubrögð?