140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:10]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það virðist ekki vera hægt að fá það fram hjá hæstv. forseta hversu lengi þessi fundur eigi að standa. Ég spyr hæstv. forseta að því af því að það er ekki hægt að vera með næturfundi dag eftir dag, ég tala ekki um þegar starfsáætlun þingsins er löngu fallin úr gildi.

Mig langar að spyrja hæstv. forseta að því hvort einhvers staðar á vettvangi þingsins sé verið að ræða það fyrirkomulag að halda fundi á nóttunni. Er það rætt í þingskapanefndinni? Er það rætt í forsætisnefnd? Eða er kominn tími til að kalla aftur saman þá merku nefnd sem sett var á laggirnar í upphafi þessa kjörtímabils og hafði það hlutverk að gera þennan vinnustað fjölskylduvænan, fjölskylduvænu nefndina? Ég veit að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson er fulltrúi okkar sjálfstæðismanna í þeirri nefnd. Ég kannast ekki við að boðaður hafi verið fundur þar mjög lengi. Ég held að við ættum að gera hlé á þessum fundi og boða fund í þeirri nefnd og reyna að fá botn í vinnulagið hér.