140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir félagar mínir fara þess á leit við forseta að við fáum svör við því hversu lengi við munum halda áfram. Við erum komin inn í nóttina. Hversu lengi munum við halda áfram? Nú er klukkan korter yfir tvö.

Mér þætti líka vænt um að vita hvað gerðist því að frú forseti, sem er í sama kjördæmi og hæstv. sjávarútvegsráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hefur alla jafnan fram til þessa sem þingmaður hlustað á það sem sá ágæti maður, þingmaður og ráðherra hefur haft fram að færa. Margt af því hefur verið skrýtið en margt hefur verið ljómandi gott í gegnum tíðina, m.a. það sem lesið var upp áðan. Þess vegna vil ég gjarnan fá að vita af hverju þetta ósamræmi er. Af hverju gilda núna önnur sjónarmið þegar hæstv. ráðherra er ekki lengur háttvirtur? Ég vil gjarnan fá að vita það og fá þau svör sem ég tel okkur þingmenn eiga rétt á hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.