140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er mjög skiljanlegt að forseti reyni að liðka fyrir í þingstörfum og reyni að koma fólki að sem er á mælendaskrá. En við vitum vel að þetta mál þokast lítt áfram. Hæstv. sjávarútvegsráðherra situr hér í salnum í stað þess að sitja á fundi með stjórnarandstöðuþingmönnum sem og stjórnarþingmönnum til að reyna að semja um þetta mál. Við verðum að fara að tala um hlutina eins og þeir eru. Með fullri virðingu fyrir ráðherra — það er gott að sjá hann, ég vil gjarnan að menn verði frekar hér og sitji í bakherbergjum eða hliðarherbergjum og ræði það hvernig við getum komist að niðurstöðu. Ef hæstv. ráðherra og aðrir stjórnarliðar, sem hafa reyndar verið mjög fámennir, hlusta á okkur þá er ákveðinn þráður sem hægt er að fylgja til að leita og ná sáttum í málinu. Þess vegna held ég, með fullri virðingu fyrir forseta og ráðherra og öðrum stjórnarliðum sem hér eru, að tímanum sé betur varið í þeim efnum að reyna að tala saman (Forseti hringir.) og komast að niðurstöðu því að ég er enn þá sannfærð um, þrátt fyrir að komin sé nótt, enda er íslensk sumarnótt yndisleg, að við getum náð niðurstöðu og almennilegri sátt til lengri tíma litið í þessu mikilvæga máli.