140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:20]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þau tilmæli mín til forseta að grípa inn í þessa umræðu með því móti sem ég hef áður lagt til, þ.e. að gert verði hlé á umræðunni og þær tillögur sem hafa komið fram hjá atvinnuveganefnd verði sendar til umsagnar. Við tækjum síðan önnur mál fyrir, það er hægt að funda stíft um þau. Og þegar búið væri að veita umsögn um breytingartillögur yrði 2. umr. haldið áfram og málið tekið til nefndar milli 2. og 3. umr., farið yfir þær niðurstöður sem kæmu út úr þeirri umræðu ásamt þeim athugasemdum sem kæmu frá þar til bærum fagaðilum. 3. umr. gæti því farið fram með þeim hætti að eiga mætti von á því að niðurstaðan, þau lög sem Alþingi sendi síðan frá sér, væru skynsamleg og ábyrg og þjóð okkar til heilla.

En þau vinnubrögð sem hér eru ástunduð eru ekki til þess fallin að ýta undir væntingar manna um það.