140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að meginágreiningurinn sé kannski sá að menn eru ekki sammála um hvað teljist hóflegt. Þegar mismunandi sjónarmið eru gagnvart slíkum hlutum getur vissulega tekið svolítinn tíma að ná sáttum. En ég tek undir með hv. þingmanni um að ég veit ekki til þess að nokkur sem gerir út skip í dag eða þarf að borga veiðigjald sé ekki tilbúinn til að borga aðeins hærra veiðigjald. En það er vitanlega svolítið misjafnt hvað menn telja hóflegt og auðvitað fer það líka eftir útgerðarflokkum og fyrirtækjum hvað þau þola.

Úr því að hv. þingmaður fór inn á þá braut að tala um þessa hluti held ég að morgundagurinn væri til dæmis betur nýttur í einhverjar viðræður við aðila í málinu en að halda þingfund um það (Forseti hringir.) með ræðum, en það er hins vegar sjálfsagt að gera það ef menn vilja það.