140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög nauðsynlegt að setja þessi mál í tiltekið samhengi og samhengið er eftirfarandi: Það sem gerst hefur í íslenskum sjávarútvegi frá árinu 1984 er að arðsemin í greininni hefur aukist að jafnaði um hálft prósent á ári. Ef menn tala um svona lága prósentu finnst þeim kannski ekki mikið til koma en þegar við skoðum það í þessu 30 ára samhengi er um að ræða verulega aukningu á arðsemi í greininni. Það er vegna þessarar arðsemi sem þó hefur orðið í greininni, þrátt fyrir allt sem menn hafa sagt um fiskveiðistjórnarkerfið, sem við getum yfir höfuð talað um að mögulegt sé að leggja á einhverja sérstaka gjaldtöku eða sérstakan skatt í sjávarútvegi. Það er svo mikilvægt að hafa það samhengi í huga.

Við höfum séð miklar framfarir í sjávarútveginum sem stafa af tækninýjungum og breytingum og ekki síst af því að sú breyting hefur orðið, sem leiðir af aflamarkskerfinu og aflahlutdeildarkerfinu, að menn hafa verið að sameina aflahlutdeildir, menn hafa verið að sameina fyrirtæki og búið þannig til aukna arðsemi.

Ef við hefðum þetta ekki til staðar værum við auðvitað ekki í þeirri stöðu sem við erum í nú, að ræða um veiðigjöldin. Það verður auðvitað að skoða það í þessu samhengi. Í raun og veru er ekki mikill ágreiningur um það lengur hvort innheimta eigi veiðigjald eður ei. Sá ágreiningur var uppi fyrir 20 árum en menn settu hann niður í prinsippinu árið 2000 þegar auðlindanefndin skilaði áliti sínu. Hún lagði hins vegar mikla áherslu á að slíkt auðlindagjald yrði að vera hófstillt vegna þess að ella væri gengið of nærri sjávarútveginum, fyrir utan annað sem ég vil spyrja hv. þingmann um. Hátt veiðigjald hefur tilhneigingu til að auka samþjöppun í greininni. Nú hafa margir talað um að samþjöppunin sé orðin of mikil. Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að hið háa veiðigjald sem nú er verið að boða muni leiða til aukinnar samþjöppunar í greininni?