140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að það er akkúrat kerfið sem hefur gert það að verkum að arðsemin hefur aukist og möguleiki er á að fyrirtækin greiði hærri skatta núna en þau hafa áður gert, en að sjálfsögðu þarf það að vera hóflegt og um það stendur kannski deilan, hvað er hóflegt.

Það virðist eins og upphæðin hafi verið ákveðin fyrst og síðan hafi verið reynt að smíða eitthvert system í kringum upphæðina til að láta það ganga upp sem stjórnvöld ætluðu að gera. Að mínu viti eru það öfug vinnubrögð.

Hv. þingmaður spyr hvort hátt gjald geti aukið samþjöppun. Ég held að það sé alveg augljóst að þau fyrirtæki sem ekki þola þessa hækkun veiðigjalds munu að mínu viti á endanum annaðhvort lenda beint hjá fjármálastofnunum sem eiga þá veð í skipum þeirra og fasteignum eða að einhver önnur fyrirtæki reyni að eignast þau eða leysa þau til sín áður en illa fer. Ég held að það verði augljóslega afleiðingar þessara frumvarpa. (Gripið fram í.) Ég held að það sé ekki endilega gott að meiri samþjöppun verði ef kerfið er sjálfbært, ef það skilar okkur góðum fyrirtækjum og arðsemi er ekki endilega þörf á frekari samþjöppun. Ég hef ákveðnar efasemdir um ágæti þess að meiri samþjöppun verði. Ég hef hins vegar heyrt menn tala um að mesta arðsemin geti verið fólgin í að hafa tvö fyrirtæki í útgerð á Íslandi og sjálfsagt er það rétt en það er að mínu viti alveg galin hugmynd að ætla að það geti orðið. Við þurfum að vera með öflugar stórar útgerðir og einnig öflugar smábátaútgerðir því að auðvitað róa menn og selja á mismunandi markaði, veiða mismunandi tegundir og vinna fiskinn með mismunandi aðferðum sem eykur umsvifin.