140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sínum tíma þegar menn fóru að tala fyrir þeirri hugmynd að skynsamlegt væri að setja á veiðigjald var hugmyndin sú að stuðla að aukinni samþjöppun. Þeir gömlu sem töluðu fyrir því á sínum tíma sögðu það alveg purkunarlaust. Það var tilgangurinn. Með því að setja á veiðigjald væri verið að reyna að þrýsta þeim út úr greininni sem ekki réðu við þessi gjöld. Þá stæðu færri eftir og þannig mundu menn ýta hraðar undir hagræðinguna. Við höfum að vísu séð slíka hagræðingu verða hjá okkur í þessu kerfi án veiðigjaldsins en hættan er sú að ef veiðigjaldið verður sett á með svo miklum þunga muni það stuðla að miklu hraðari samþjöppun en ella. Menn hafa bent á og það hefur komið fram í áliti sérfræðinga, ekki bara sérfræðinganefndarinnar heldur margra annarra, að það fyrirkomulag sem hér er lagt til, meðal annars vegna þess að menn eru með hugmyndir um að reyna að skilgreina einhverja rentu í fiskvinnslunni, muni leiða til þess (Forseti hringir.) að einyrkjarnir eða útgerðir án fiskvinnslu muni verða hvað verst úti, af því hafa til dæmis menn á fiskveiðimörkuðunum sérstakar áhyggjur. Ég vil spyrja hv. þingmann út í það.