140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni Framsóknarflokksins, fyrir þetta svar og vangaveltur með mér. Það er grein eftir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í Sjómannadagsblaðinu sem kom út nýverið. Þar segir hann meðal annars, með leyfi forseta:

„Sá mikli uppgangstími sem verið hefur síðan í íslenskum sjávarútvegi hefur haft þau áhrif að skuldastaða greinarinnar hefur snarbatnað og hún styrkst. Í stað þess að sjávarútvegurinn sé í neikvæðri eiginfjárstöðu er eigið fé komið í yfir 100 milljarða króna og skuldir hafa lækkað um nálægt 200 milljarða. Sjávarútvegurinn er því að komast aftur á þann stað þar sem greinin á að vera — burðarás lífskjara Íslendinga.

Nokkur styr hefur staðið um frumvörp til laga um breytingar á stjórn fiskveiða og um upptöku sérstaks veiðigjalds,“ segir hæstv. ráðherra. Aðeins aftar segir hann:

„Hlutverk stjórnvalda hefur verið, er og á að vera að reyna að sætta sjónarmið mismunandi hópa sem takast á í máli af þessu tagi. Markmiðið er meðal annars að tryggja sjónarmið um nýliðun, atvinnuréttindi, sanngjarnan leigumarkað aflamarks, eflingu byggða, sjálfbærni fiskveiða og stöðugt og traust rekstrarumhverfi greinarinnar.“

Hann segir líka í þessari grein, virðulegi forseti, að það sé ánægjulegt að lifa og hrærast með því hversu vel gangi í sjávarútvegi um þessar mundir. Hann segir að verkefnið sé erfitt en ekki óleysanlegt og að það sé mikið í húfi.

Ég spyr hv. þingmann: Er ekki svolítið ósamræmi í þessum ummælum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem hann dregur fram þau sjónarmið að koma á stöðugu og traustu rekstrarumhverfi og vill tryggja sjónarmið um nýliðun og atvinnuréttindi? Er það í samræmi við víðtækar áhyggjur sjómanna, útgerðarmanna og byggðarlaga? (Forseti hringir.) Eru menn ekki að tala svolítið í kross?