140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að nota tækifærið til að upplýsa hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um að þingmönnum er heimilt að fylgjast með andsvörum þótt þeir séu ekki sjálfir þátttakendur í þeim svo það var alger óþarfi af hv. þingmanni að skrá sig í andsvar eingöngu til að geta fylgst með öðrum andsvörum.

Það sem ég ætlaði að ræða við hv. þingmann er sú afneitun sem virðist vera í gangi í stjórnarliðinu gagnvart þeirri miklu gagnrýni sem hefur komið fram á þetta frumvarp. Þetta hefur reyndar gengið svo langt að þegar fjölmennur mótmælafundur var fyrir utan þinghúsið fyrir tveimur dögum töldu einhverjir stjórnarliðar að þar væri fólk að hluta til að minnsta kosti mætt til að hvetja til þess að frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði samþykkt, fagna með ríkisstjórninni.

Virðulegi forseti. Ég hef oft verið mjög gagnrýninn á þessa ríkisstjórn en ég verð hins vegar að fallast á að ástandið gæti auðvitað verið miklu verra og ég mundi aldrei bera þessa ríkisstjórn saman við ógnarstjórnir eins og stjórn Gaddafís í Líbíu en hún á þó eitt sameiginlegt með þeirri stjórn og vonandi aðeins eitt. Það er þessi ótrúlega afneitun. Þegar NATO-herflugvélar köstuðu sprengjum yfir Trípólí með gæðastimpli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gaf Gaddafi út þá yfirlýsingu að sprengjurnar væru líklega flugeldasýning til að fagna stórkostlegum árangri hans við stjórn landsins. Þegar hér söfnuðust saman þúsundir manna á Austurvelli til að mótmæla ríkisstjórninni og þeim frumvörpum sem hér voru lögð fram þá heyrðu einhverjir stjórnarandstæðingar eða töldu sig heyra það að þarna væri saman komið fólk til að fagna ríkisstjórninni og þeim frumvörpum sem við ræðum nú. Þetta er það eina sem ég sé sameiginlegt með þessari ríkisstjórn og því stjórnarfari sem ríkti í Líbíu, sem betur fer.

En ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að afneitunin hefur náð þessu stigi hjá hæstv. ríkisstjórn?