140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Áður en umræðan hefst í dag vil ég koma hingað upp og óska eftir því að forseti kalli til fundarins nokkra ráðherra vegna þess að í ræðu minni hér á eftir mun ég óska eftir viðbrögðum til að mynda hæstv. innanríkisráðherra varðandi samskipti sveitarfélaga og ríkisins, hafnirnar og annað í þeim dúr. Ég sé að hér er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég vildi gjarnan að hæstv. fjármálaráðherra væri líka til staðar til að ræða um veiðigjöldin og fjárhæðina og tengsl við tekjuskatt. Ég vildi jafnframt að hæstv. forsætisráðherra sem ber ábyrgð á stefnu ríkisstjórnarinnar væri til staðar. Þá er augljóst að hv. þingmenn sem sitja í atvinnuveganefnd þurfa að vera á fundinum til viðræðu þegar þessi umræða fer fram í dag eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Ég sé að hv. þm. Björn Valur Gíslason er hér, hv. þm. Kristján L. Möller, (Forseti hringir.) Sigmundur Ernir Rúnarsson og fleiri.

Ég tel mjög mikilvægt, frú forseti, fyrir umræðuna að þessir hæstv. ráðherrar og þingmenn verði til andsvara og viðræðu í dag svo hægt sé að ræða þetta mál af einhverju viti.