140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að það er mikilvægt að þeir sem bera ábyrgð á framlagningu þessa máls, þ.e. hv. samfylkingarþingmenn og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, séu viðstaddir umræðuna í dag ásamt þeim hæstv. ráðherrum sem hafa lagt svo mikla áherslu á að það gangi fram. Í raun og veru skil ég ekki alveg hvernig fundarstjórn hæstv. forseta er háttað núna þegar tugir mála eru á dagskrá Alþingis og þetta er fimmti eða sjötti dagurinn sem þetta mál er rætt. Við í stjórnarandstöðunni höfum margoft boðið að taka önnur mál fram yfir sem snerta hag heimila og fyrirtækja í landinu en hæstv. ríkisstjórn, framkvæmdarvaldið hefur Alþingi undir hælnum og það á að koma þessu máli í gegn með góðu eða illu.

Reyndar er það svo að það fyrirfinnst nær enginn stuðningsmaður við þessi frumvörp hér á landinu (Forseti hringir.) sem sýndi sig í þeim mótmælum sem áttu sér stað fyrr í vikunni á Austurvelli.