140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni. Ég held að í grundvallaratriðum séum við sammála um þá hugmynd að stofna til einhvers konar veiðiskatts sem útgerðir í landinu muni greiða. En ég er algerlega ósammála honum um að stjórnarandstaðan sýni einhverja ósanngirni í þessu máli. Ég tel stjórnarmeirihlutann fara fram af miklum yfirgangi í málinu.

Við höfum boðið upp á að málið verði tekið aftur inn til nefndar núna og unnið með það. Ef það er svo stutt á milli manna eins og hv. þingmaður vísar til ættum við að hafa manndóm í okkur á þingi að hætta þessari vitleysu, þessu karpi sem stjórnarmeirihlutinn stendur fyrir með meðferð sinni á málinu.

Það kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Norðdahl, yfirlögfræðingi ASÍ, í nótt að hér er náttúrlega verið að brjóta vinnulöggjöfina. Ég vil í þessari stuttu ræðu minni beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta (Forseti hringir.) hvenær við megum reikna með því að þingfundi ljúki í dag. Það er eðlilegt að fólk geti gert sín plön. En fyrst og fremst liggur málið hjá stjórnarflokkunum. Við erum tilbúin til að setjast niður og vinna að lausnum á því en þessi málsmeðferð er ekki bjóðandi.