140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Staðan í þinginu er flókin, ekki bara vegna þessa máls sem hér liggur fyrir heldur vegna fjöldamargra mála sem komu frá ríkisstjórninni á síðustu stundu og eru umdeild. Sum tengjast, önnur ekki. En ríkisstjórnin tók þá ákvörðun á síðustu mögulegu frestdögum í lok mars, byrjun apríl að setja inn tugi mála sem mörg hver eru afar umdeild og krefjast mikillar umræðu. Það veldur því að ástandið í þinginu er óvenjuerfitt þessa vordaga. Auðvitað er mikilvægt að menn finni einhvern flöt á því en það verður auðvitað ekki samkomulag um það ef meiri hlutinn ætlar bara að hafa sitt fram, valta yfir stjórnarandstöðuna, valta yfir umsagnaraðila og valta yfir sérfræðinga sem tjá sig um þessi mál.