140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er öllum ljóst að þingstörfin eru í miklum hnút. Hv. þingmaður og þingflokksformaður Samfylkingarinnar Magnús Orri Schram sagði að það væri möguleiki að ljúka þessari umræðu og að við færum saman yfir það hvernig hægt væri að leysa þessi mál.

Stjórnarandstaðan hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar boðið að hlé yrði gert á þessari umræðu til að menn settust niður og skoðuðu hvort hægt væri að ná samkomulagi. Því hefur verið hafnað.

Ég las frétt í Morgunblaðinu í morgun, það var að vísu hraðlestur en ég gat ekki annað séð en að þar væri haft eftir hæstv. forsætisráðherra að ekki yrði meira gefið eftir í þessum málum. Ég verð að viðurkenna að mér þykir það ekki vera vísbending um að þar sé mikill sáttahugur.