140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem hann nefndi, veiðigjaldið og hvernig Vinstri grænir hafa snúið málflutningi sínum við á einungis nokkrum árum í þeim efnum. Mig langar að vita um hug hv. þingmanns til veiðigjaldsins og þeirra hugmynda um að hluti veiðigjaldsins eigi að skila sér aftur til sjávarbyggðanna í því formi að styðja þar við samfélög og nýsköpun í atvinnumálum. Kvótakerfið hefur verið og er þannig uppbyggt að það er knúið áfram af hagræðingu og við það hefur störfum í mörgum sjávarbyggðum fækkað. Ég hef verið talsmaður þess að reyna að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi í þeim byggðarlögum. Eitthvað þarf þá til þess og ég tel að okkur, í ljósi þess að við erum að reka mjög hagkvæmt fiskveiðistjórnarkerfi, beri skylda til þess að stuðla að því að jafna búsetuskilyrðin í landinu og efla byggðina í hinum dreifðu byggðum. Þetta er fyrirspurn mín um hug hv. þingmanns til þess hvernig skipta eigi veiðigjaldinu.

Í annan stað langar mig að spyrja hv. þingmann hvernig hann hafi upplifað þennan útifund sem var hér í vikunni þar sem sjómenn komu hingað til Reykjavíkur og mótmæltu mjög harðlega því frumvarpi sem við ræðum. Það var annar hópur sem mótmælti líka og mér hefur fundist eins og hv. stjórnarliðar hafi sagt og látið að því liggja að sá hópur sem kom hingað, fyrir utan sjómennina, hafi komið sérstaklega til að fagna þessu frumvarpi. Ég gat ekki skilið að mikil ánægja væri hjá þeim hópi með það frumvarp sem við ræðum núna, mín upplifun var algjör mótmæli gegn því frumvarpi hér á Austurvelli. Ég spyr hv. þingmann hvernig hann hafi upplifað þann fund.