140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að athyglisvert var að fylgjast með framferði einstakra aðila á Austurvelli þennan dag. Nú ætla ég ekki að fella þann dóm að allir hafi hegðað sér með slíkum hætti. En að þeir aðilar sem hafa talað fyrir nýju Íslandi og opinni lýðræðislegri umræðu skuli stuðla að því að hrópað sé og kallað fram í fyrir ræðumönnum, að menn fái ekki tóm til þess að flytja mál sitt — eins og til að mynda vinkona mín, Guðný Sverrisdóttir, sem kom hingað suður frá Grenivík til þess að flytja mál sitt — mér finnst slík framkoma ekki sæmandi og ég tek undir það með hv. þingmanni.

Hins vegar erum við að ræða um landsbyggðarskatt sem verið er að setja á hinar dreifðu byggðir og mér finnst að hv. þingmaður þurfi þá að koma inn á það hvernig við minnkum það misvægi. Í skýrslu sem Vífill Karlsson hefur gefið út kom fram að 75% af opinberu fjármagni fer til Reykjavíkur meðan 42% af tekjum ríkissjóðs koma úr Reykjavík. (Forseti hringir.) Hvernig getum við jafnað þetta misvægi?