140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég get ekki lýst einhverri leið til að tryggja að þetta lendi ekki á launum sjómanna og annarra. Reyndar leyfi ég mér að fullyrða að ef dregið er úr samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs mun það leiða til launalækkunar. Þá er ég ekki að tala um einhverjar sérstakar aðgerðir útgerðarmanna til að velta byrðunum yfir á sjómenn heldur einfaldlega að skert samkeppnisstaða muni valda þessu.

Hvað varðar hugmyndir þær sem hv. þm. Jón Bjarnason og Atli Gíslason hafa reifað vil ég enn og aftur minna á að ein af þeim forsendum sem liggja fyrir þessari tegund af gjaldi er sú að um sé að ræða þjóðareign. Um það hefur staðið deila í þingsalnum hvað það hugtak þýðir. En ef hugtakið þjóðareign þýðir að þjóðin eigi auðlindina og allir þeir sem eru af íslensku bergi brotnir eigi jafnan rétt gefur augaleið að ekki er hægt að fara slíkar leiðir. Ef um er að ræða ríkiseign (Forseti hringir.) er rétt að menn fari að tala þannig og þá breytast auðvitað sjónarmiðin. En þá vil ég vara við einu; sagan er ekki sú að skattar sem lagðir eru á renni í ríkari mæli út á land en til Reykjavíkur.