140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst er til að taka að það voru forustumenn Alþýðuflokksins og hagfræðingar þeim flokki tengdir sem töluðu einna helst og harðast fyrir þessari tegund af gjaldtöku og, eins og réttilega hefur komið fram, ritstjóri Morgunblaðsins. Þær deilur sem uppi voru í þjóðfélaginu gerðu það að verkum að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, sem leggur mikið upp úr því að sátt náist í samfélaginu um ákveðin grundvallarmál og gerir sér fyllilega grein fyrir því að menn verða að vera tilbúnir til að slá af sínum ýtrustu kröfum í þeirri viðleitni, lagði til og studdi það að tekið yrði upp gjald eins og raun varð á. En forsenda þeirrar gjaldtöku var sú að sjávarútvegurinn gæti staðið undir því gjaldi og það væri hóflegt. Þannig komu menn með ólík sjónarmið sér saman og þannig var unnið. Ég held að núverandi hæstv. ríkisstjórn mætti aðeins hugleiða það hvernig ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins eða undir forustu Sjálfstæðisflokksins vann þessi mál af því að það er svo mikilvægt að sátt náist um þessa hluti, ekki sé farið fram með því offorsi og reyndar þeim litla undirbúningi sem birtist í þeim frumvörpum sem hér hafa verið lögð fram.

Hvað varðar upphæð gjaldsins sem hv. þingmaður spyr mig um, hvað sé eðlilegt gjald, hefur það allt að gera með stöðu sjávarútvegsins, rekstrargetu hans og hæfi. Þá vill þannig til, virðulegi forseti, að ég get illa svarað hv. þingmanni þessu nema ég geti gert mér nokkuð glögga grein fyrir því hvernig það rekstrarumhverfi verði. Nú liggur fyrir í þinginu og er inni í nefnd frumvarp sem gerbreytir öllu rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Ég mun, virðulegi forseti, svara þingmanninum samviskusamlega þegar við höfum tekið þá óvissu út vegna þess að það er tómt mál að tala um þetta undir þessum kringumstæðum. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum lagt til (Forseti hringir.) að röð þessara mála sé önnur. Fyrst sé fiskveiðistjórnarfrumvarpið klárað og síðan ræði menn veiðileyfagjaldið.