140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að sjávarútvegurinn eigi að greiða fyrir alla þá þjónustu sem hann fær af hálfu ríkisins og það eigi að taka af honum gjald fyrir það. Síðan deilum við um hitt. Þess vegna höfum við lagt til að þær leiðréttingar sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni og eru umtalsverðar og umfangsmiklar verði teknar saman og sendar til umsagnar þeirra sem gerst og best þekkja til reksturs atvinnugreinarinnar. Það tel ég að við eigum að gera núna strax. Við eigum að gera hlé á umræðunni og senda tillögurnar út til umsagnar. Á meðan getum við hafið umræðu um fiskveiðistjórnarfrumvarpið og byrjað að vinna í þeim málum öllum saman, gert okkur betri og gleggri grein fyrir því hvað þar er á ferðinni og haldið síðan áfram þegar við höfum fengið til baka umsagnir um þær miklu breytingar sem lagt er til að verði gerðar á þessu frumvarpi. Það var enda fullkomlega ónýtt þegar það kom inn. Reikniverkið var rangt og þau gögn sem voru lögð til grundvallar voru algerlega ónothæf. Það er ámælisvert, virðulegi forseti, að koma með mál svo illa undirbúin hingað til þings.