140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á atriði í seinni spurningu sinni sem ég hef komið inn á í ræðum mínum og ég hef meðal annars fengið viðbrögð við því frá hv. þm. Magnúsi Norðdahl, yfirlögfræðingi ASÍ. Það kemur alveg skýrt fram að miðað við þær forsendur sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gefur sér um lágt gengi til lengri tíma litið að það fer gegn þeim markmiðum sem sett eru í samvinnu við ríkisstjórnina í stöðugleikasáttmálanum. Vinstri höndin veit því ekki sú hægri gjörir. Forsendur ríkisstjórnarinnar í þessu máli eru hæpnar. Miðað er við að gengið verði lágt en ríkisstjórnin pukrast með það. Af hverju? Af því að þá gengur ríkisstjórnin um leið gegn kaupmætti og hagvexti, hún gengur þá gegn því að kjör fólksins í landinu batni og fer gegn því sem hún hefur sjálf samþykkt til að stuðla að í stöðugleikasáttmálanum. ASÍ kemur skýrt inn á það bæði í umsögnum og gögnum að forsendur ASÍ og aðila vinnumarkaðarins séu augljóslega ekki þær sömu og í umsögn fjármálaráðuneytisins í þessu frumvarpi.

Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns sem tengist launakjörum sjómanna, starfsfólks í sjávarútvegi o.s.frv. er ég sannfærð um að þetta muni stuðla að launalækkun og verri kjörum þeirra sem starfa innan sjávarútvegsins og líka þeirra sem starfa í fyrirtækjum og afleiddum störfum í sjávarútvegi af því að sjávarútvegurinn mun hafa minni tækifæri til fjárfestinga. Ragnar Árnason prófessor kemur mjög vel inn á það í umsögn sinni þar sem hann fer markvisst yfir alla þessa þætti. Ég hvet flesta til þess að lesa þá umsögn því að hún er mjög kjarnyrt og skýr. Ragnar dregur alla þessa þætti mjög vel fram, m.a. ógnina sem að sjávarútveginum stendur af þessum breytingum.

Ragnar segir, með leyfi forseta:

„Fullvíst má telja að fyrirhugað veiðigjald muni setja þrýsting á launakjör allra þeirra sem vinna við sjávarútveg. Ástæðan er afar einföld. Jaðarábati fyrirtækjanna af hverri vinnustund (en hann ræður vilja þeirra til launagreiðslna) lækkar sem nemur skattinum. (Forseti hringir.) Fyrirtækin munu því leita leiða til að lækka þessi laun og e.t.v. einnig fækka starfsmönnum. (Forseti hringir.)

Ég held að forsætisráðherra og ríkisstjórnin ættu að staldra aðeins við og hugsa sig um.