140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta bara punktur í ræðu, ég hefði ekkert endilega viljað svara þessu því að mér fannst það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir var einmitt að segja og benda á í sínu máli kjarnyrt. Hún beinir sjónum sínum að raunverulegri uppbyggingu á landsbyggðinni. Við verðum að horfast í augu við að sem betur fer eru miklar tækniframfarir í sjávarútvegi og landbúnaði sem stuðla að því að við horfum upp á annan veruleika í dag en var fyrir 50 árum, 30 árum, 20 árum og þær stuðla að fólksfækkun.

Eftir stendur að það eru hagsmunir okkar allra að landið haldist í byggð. Hvað getum við þá gert til að svo verði, að þeir sem eftir eru séu ekki þjakaðir af delluálögum sem hæstv. ríkisstjórn er að koma á laggirnar? Við gerum það markvisst með þeim meðulum sem við höfum notað fram til þessa eins og hv. þingmaður bendir á. Við gerum það í gegnum menntunina, skólana, fjar- og dreifnám sem ég tek alveg heils hugar undir að hefur skipt mjög miklu máli. Það er hægt að gera það með þeim hætti sem við fórum saman í, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, með menningarsamningum við alla landsbyggðina. Að hverju stuðlaði það? Ég var gagnrýnd á höfuðborgarsvæðinu fyrir að gera ekki sömu menningarsamningana hér, en hér er einfaldlega öll þjónustan, menningarsamningarnir voru hluti af því að reyna að byggja upp þessa starfsemi og verkefni á landsbyggðinni. Ég tel að það hafi gefist afar vel og þess vegna hafa sem betur fer menningarsamningar ekki orðið fyrir niðurskurðarhnífnum með þeim hætti sem maður kannski óttaðist í byrjun.

Það sama er með ferðakostnað íþróttafélaga sem við settum á laggirnar, sérstaklega til að koma til móts við erfiðleika landsbyggðarinnar. Ekki síst voru tekin dæmi af Vestfjörðum, sem og norðausturhluta landsins, suðurhluta og suðausturhluta, sem áttu í miklum erfiðleikum með að senda börnin á íþróttamót vegna mikils kostnaðar. Þetta eru miklu raunhæfari aðgerðir (Forseti hringir.) sem er hægt að fara í sem stuðla að því að innviðirnir verða sterkari en áður. (Forseti hringir.) Sú leið ríkisstjórnarinnar að leggja auknar álögur á landsbyggðina er ekki til þess fallin að byggja upp landsbyggðina.