140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:06]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst hann hafa nálgast þetta út frá þeim grundvallarsjónarmiðum að við erum að tala út frá almannahagsmunum. Þegar við lítum til stjórnar fiskveiða þarf að gera það út frá almannahagsmunum, að veiðarnar gangi vel, að fyrirtækjunum vegni vel þannig að þau geti skilað ábata inn í ríkissjóð og líka að samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs sé góð gagnvart alþjóðlegum mörkuðum. Íslenskur sjávarútvegur er ekki stakur og einn hér uppi á Íslandi heldur á hann í hatrammri samkeppni við erlend fyrirtæki. Mér finnst alveg hafa skort á það hjá meiri hluta atvinnuveganefndar og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þurfa að útskýra hvaða áhrif þessi ofsafengna skattlagning mun hafa á samkeppnishæfni sjávarútvegsins.

Ég vil gjarnan fá álit hv. þingmanns á því hvort hann telji að þetta muni raska samkeppninni og einnig því að þegar við lítum til Evrópusambandsins, sem er mikið áhugamál hjá Samfylkingunni, þá kemur auðvitað í ljós eins og við þekkjum að sjávarútvegurinn þar er verulega styrktur. Íslenskur sjávarútvegur er í samkeppni við sjávarútveg á vegum Evrópusambandsins sem er styrktur — um hve mikið, virðulegi forseti, skyldi það vera um 100 milljarða á ári árið 2013? Um 100 milljarðar á ári sem Evrópusambandið styrkir sjávarútveg sinn sem sjávarútvegur okkar er í samkeppni við. Og nú er það ætlun ríkisstjórnarinnar að draga úr samkeppnishæfni okkar góðu fyrirtækja. Hvaða þýðingu hefur það? Það hefur bein áhrif á lífskjörin í landinu og það vegur beint að almannahagsmunum.