140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ábyggilegt að skattlagning af þeim toga sem hér er lagt til — við skulum hafa það í huga að ríkisstjórnin hefur verið að hækka þessa skatta ótæpilega á undanförnum missirum, gríðarleg hækkun á veiðileyfagjaldi frá því sem var. Fyrir síðasta ár væntanlega var gert ráð fyrir 4,5 milljörðum í tekjur af veiðileyfagjaldi plús um 5 milljarðar í tekjur af tekjuskatti, þannig að með því móti fást 10 milljarðar handa okkur, til hagsbóta fyrir þjóðina af veiðunum. Síðan eins og ekkert sé er sú tala hækkuð í 11 milljarða í fjárlögunum og svo kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra með frumvarp þar sem veiðileyfagjöldin eru komin nánast upp í 24 milljarða og síðan er fyrir fram búið að ráðstafa þeim peningum í hin og þessi verkefni sem ríkisstjórninni dettur í hug. Ég heyrði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segja það í morgun að það sé bara frekja af hálfu stjórnarandstöðunnar að leggjast gegn tekjuöflunarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar og málum sem eiga rót í fjárfestingaráætlun. Ég mundi frekar segja að það væri ótrúleg frekja af hálfu framkvæmdarvaldsins að ráðstafa fé sem Alþingi hefur ekki enn greitt götu fyrir í þinginu.

Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að auðvitað hefur þetta bein áhrif á afkomu sjómanna og ekki bara bein áhrif á afkomu sjómanna, heldur hefur þetta bein áhrif á afkomu landsmanna. Það er það sem ég skil ekkert í að menn skuli ekki gera sér grein fyrir og láta sem svo að það sé augljóst mál að sömu tekjur fáist úr sjávarútvegi með stórkostlegri skattlagningu og allt öðru kerfi, að það sé bara ekkert mál að sækja sömu tekjur þegar er búið að snúa öllu við og að breytingarnar verði alltaf til góðs. Þetta er algerlega fjarstæðukenndur málflutningur. Menn ættu að kynna sér söguna. Menn þyrftu að kynna sér það hvernig sjávarútvegi var háttað áður en við byrjuðum að reyna að laga þetta kerfi, en auðvitað er það þannig að það er ekkert kerfi fullkomið. Þess vegna hefur því verið breytt látlaust frá því að það var sett á laggirnar. (Forseti hringir.) En að koma hingað með mál þar sem enginn veit hvaða afleiðingar hefur á heimilin í landinu er náttúrlega ekki boðlegt.