140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um það að gera þarf breytingar á sjávarútvegskerfinu. Við höfum einfaldlega þurft að hafa annað verklag á því og hleypa fleiri hagsmunaaðilum að því borði. Það var ekki gert í þetta sinn.

En hv. þingmaður benti réttilega á þennan hringlandahátt. Það eru örfáir mánuðir síðan við samþykktum fjárlög á Alþingi og þar í tekjugrundvelli var gert ráð fyrir að veiðigjaldið ætti að skila 11 milljörðum kr. Nokkrum vikum síðar er lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir að veiðigjaldið eigi að skila 24 milljörðum. Nokkrum dögum seinna koma fram breytingartillögur á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir að veiðigjaldið eigi að skila 15 milljörðum. Hvers lags hringlandaháttur er þetta? Svo kemur hæstv. forsætisráðherra og tilkynnir nýjan fjárfestingarsamning og ef þetta veiðigjald upp á 15 milljarða, sem ríkisstjórnin gerði ráð fyrir fyrir nokkrum mánuðum að ætti að nema 11 milljörðum, verði ekki samþykkt þá verði samgöngubótum á landsbyggðinni, á Norðfirði, vestur á fjörðum og ýmsum öðrum brýnum framkvæmdum slegið á frest. Landsmenn geta bara valið um það. Annaðhvort samþykki þeir það frumvarp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram eða framkvæmdum verður frestað.

Þó er það svo að í fjárlögum er einungis gert ráð fyrir 11 milljarða kr. veiðigjaldi þannig að maður á erfitt með að skilja þetta verklag hjá ríkisstjórninni þegar kemur að mikilvægum málum eins og rekstrarumhverfi sjávarútvegsins, að við tölum nú ekki um verklegar framkvæmdir hér á landi til að mynda í samgöngumálum. Því var lofað á sínum tíma og fyrirheit um það í samgönguáætlun að gerð Norðfjarðarganga ætti að hefjast að lokinni gerð Héðinsfjarðarganga. Það hefði átt að gerast fyrir nokkrum árum. Nei, nú er komið árið 2012. Það er alveg með ólíkindum að horfa upp á verkleysi ríkisstjórnarinnar og hringlandahátt og hvernig komið er fram gagnvart undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sem er sjávarútvegurinn.