140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:15]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hressilega ræðu. Ég veit að við deilum ástríðu fyrir landsbyggðinni og góðri stöðu hennar og góðu gengi. Þar sem við erum þingmenn sama kjördæmis höfum við verið svo heppin að geta farið og heimsótt frábær sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa fjárfest ótæpilega á þessu kjörtímabili í nýjum samstæðum, nýjum togurum o.s.frv. Það hefur verið mjög ánægjulegt. En við höfum líka farið á staði þar sem við vitum að í ljósi hagræðis hefur allur sjávarútvegur verið fluttur í burtu og þeir staðir eru ekki í eins góðu standi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Deilum við ekki þeirri prinsippskoðun að fiskurinn í sjónum sé auðlind sem á að vera í þjóðareigu og eðlilegt sé að fyrir hann komi hófleg gjaldtaka, þ.e. að þeir aðilar sem nýta þessa auðlind greiði fyrir það hóflegt gjald og gjaldið sé byggt þannig upp að það sé eðlilegt miðað við stöðu greinarinnar hverju sinni þannig að greinin ráði við það?

Síðan langar mig aðeins í ljósi frétta í Fréttablaðinu í morgun þar sem talað er um að sérstaklega ungar konur yfirgefi því miður landsbyggðina í stríðum straumum. Staðan er sú að ungar konur finna ekki atvinnu eða menntun við sitt hæfi úti á landi. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Væri ekki ráð að nýta að hluta til það afgjald sem tekið verður fyrir þessa auðlind til að byggja upp ný tækifæri í menntun og atvinnu sem hentar hugsanlega þessum ungu konum sem við þurfum svo sárlega á að halda úti á landi til að eðlileg fjölgun verði þar? Eigum við ekki að sammælast um það að við breytum þeirri einsleitu atvinnuuppbyggingu sem verið hefur með því að nýta einmitt það afgjald sem við ætlum að taka af sjávarútveginum þegar hann hefur burði til til þess að byggja upp atvinnutækifæri fyrir þessar ungu konur?