140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það fór þó ekki svo að við hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir værum ekki sammála um eitthvað sem tengist þessum málum. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður benti á að það er áhyggjuefni að lesa fréttir um að konur ætli sér að flýja frá landsbyggðinni í stríðum straumum eða séu að því. Ég tek undir þær áhyggjur og spyr þess vegna hv. þingmann hvort það sé þá ekki rétt að efla sjávarbyggðirnar og auka nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífinu. Þá horfum við á breytingartillögur sem hafa verið lagðar fram við þetta frumvarp þess efnis að auknir fjármunir skili sér til sjávarbyggðanna til að auka fjölbreytni í atvinnulífi og nýsköpun. Mun hv. þingmaður ekki styðja við konur á landsbyggðinni með því að samþykkja það að meiri fjármunir af veiðigjaldinu renni til hinna dreifðu byggða og minnki þannig skattlagningu á landsbyggðina sem á sér óhjákvæmilega stað?

Ég spyr hv. þingmann hvort henni finnist það eðlilegt samkvæmt því frumvarpi sem lagt var fram að áætlað veiðigjald samsvari 745 þús. kr. á hvern íbúa í Fjarðabyggð. Er það hóflegt gjald? Þetta er náttúrlega þvílík skattheimta gagnvart því sveitarfélagi. Ég vil líka benda á umsögn frá Hornafirði sem er sett fram á mjög hófstilltan hátt. Til stóð að veiðigjald fyrir það litla sveitarfélag yrði um 1.300 millj. kr. sem samsvarar því að ef slíkur skattur hefði verið settur á Reykjavíkurborg hefði skattlagningin orðið 72 milljarðar kr. á atvinnulíf í Reykjavík. Er hægt að segja að þetta sé hófleg gjaldtaka? Ég spyr hv. þingmann, sem er þingmaður landsbyggðarkjördæmis, hvort hún sé stolt af því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram. Við erum að tala um að íþyngja landsbyggðinni með þessari gjaldtöku án þess að fjármunir skili sér í nægjanlega miklum mæli til baka.