140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Að mati þingmanna Sjálfstæðisflokksins voru ummæli sem hv. þm. Björn Valur Gíslason lét falla á þingfundi aðfaranótt sl. fimmtudags um hv. þm. Jón Gunnarsson vítaverð. Afsökunarbeiðni hv. þm. Björns Vals Gíslasonar sem flutt var við upphaf þingfundar 7. júní var að mati þingmanna Sjálfstæðisflokksins ófullnægjandi.

Nú hefur Björn Valur Gíslason lýst því yfir á opinberum vettvangi að hann hafi gert mistök með því að gefa í skyn að hv. þm. Jón Gunnarsson væri undir áhrifum áfengis við þingstörf. Jafnframt hefur hann sagt afdráttarlaust að það hafi þingmaðurinn ekki verið. Það er ástæða til að fagna því að þingmaðurinn hefur stigið þetta skref, en ég vil árétta að það er skoðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins að fyrrgreind ummæli sem hv. þingmaður lét falla hafi verið vítaverð samanber ákvæði 87. gr. þingskapa en þar stendur, með leyfi forseta:

„Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu (Forseti hringir.) skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“, og nefna þau ummæli sem hann vítir.“