140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir hennar málefnalegu og ágætu ræðu. Ég tel að við sem erum í þessum sal séum ekki fulltrúar Reykjavíkur heldur þjóðarinnar allrar og séum í liði með sjávarútveginum en höfum mismunandi sýn á hvernig stjórna eigi þeirri atvinnugrein og við hvaða kjör hún eigi að búa.

Sá sem hér stendur er t.d. þeirrar skoðunar að umframarðurinn eigi ekki að fara í vasa örfárra fjölskyldna heldur dreifast til samfélagsins betur en verið hefur auk þess sem opna beri kerfið þannig að nýliðunin fari fram með þeim hætti að hún verði ekki sótt og keypt af þeim sem fyrir eru í greininni heldur komist menn með öðrum hætti inn í greinina.

Ég spyr hv. þingmann vegna þess að hún minntist á 40:50:10 leið hv. þm. Jóns Bjarnasonar og hv. þm. Atla Gíslasonar hvaða sýn hún hefur á það hvernig auðlindarentan eigi að skila sér aftur til fólksins í landinu. Ég hef þá trú að við, sá sem hér stendur og hv. þm. Eygló Harðardóttir, séum í sama liði (Forseti hringir.) hvað varðar að auðlindarentan eigi með einhverjum hætti að skila sér betur til fólksins en fárra fjölskyldna.