140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær forsendur sem liggja fyrir í þessu frumvarpi um gjaldið getur maður ekki skilið öðruvísi en svo að stjórnvöld geri einmitt ráð fyrir því að gengið muni haldast veikt þó nokkuð inn í framtíðina. Eins og er vitum við náttúrlega að það hefur gengið mjög erfiðlega að afnema gjaldeyrishöftin og að fjárfestingarumhverfi þyrfti að vera mun stöðugra á Íslandi en það hefur verið mjög óstöðugt, m.a. vegna aðgerða stjórnvalda.

Ég hef aldrei stutt eða trúað á hina svokölluðu brauðmolakenningu þar sem talað er um að þegar þeir ríku verða enn ríkari skili það sér alltaf til samfélaganna. Ég hef fyrst og fremst talað fyrir mikilvægi þess að tryggja fólki sem starfar í greininni og borgar launaskatt í gegnum útsvarstekjurnar sínar sem hæst laun. Sjómannasambandið hefur bent á (Forseti hringir.) leið til þess, m.a. í bókun við skýrslu endurskoðunarnefndarinnar, og mikilvægi þess (Forseti hringir.) að miða uppgjörsverð við markaðsverð. Því miður sé ég ekki heldur nein merki um það í tillögum ríkisstjórnarinnar.