140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Björn Valur Gíslason misskilji að einhverju leyti það sem ég hef fram að færa í þessu máli. Það hefur alltaf verið lykilatriði fyrir okkur framsóknarmenn þegar við höfum talað fyrir veiðigjaldi, og við höfum gert það og við höfum stutt að atvinnugreinin borgi veiðigjald, að hluti af því fjármagni sem rennur í gegnum þessa gjaldtöku skili sér aftur til sjávarbyggðanna sjálfra, þeirra landshluta þar sem þessara verðmæta er aflað, til þess að skapa ný störf og ný verðmæti í greininni sjálfri.

Staðan í sjávarútveginum hefur hins vegar verið mjög erfið, sérstaklega á undanförnum árum. Þegar ég hugsa til baka til þess tíma þegar ég flutti út á land í sjávarbyggð, til Vestmannaeyja 2002–2003, var staðan í sjávarútvegi mjög erfið, hún var mjög slæm. Fyrirtækin börðust virkilega í bökkum og það endurspeglaðist í því að menn höfðu ekki efni á því að standa í (Forseti hringir.) fjárfestingum í greininni að sama ráði.

Með þessari tillögu og ályktunum (Forseti hringir.) flokksþings framsóknarmanna erum við að segja að við viljum tryggja að fjármunirnir fari ekki allir í hítina í Reykjavík, (Forseti hringir.) eins og reynslan sýnir, heldur skili sér til allra landsmanna, um allt land.

(Forseti (SIJ): Forseti minnir á að það er aðeins ein mínúta til andsvara og svara.)