140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að það ætti ekki að slíta friðinn milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis en talaði síðan um þessi frumvörp sem hnefann frá Reykjavík, ef ég heyrði rétt. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé virkilega trú hennar sem hún sagði að íbúar í sjávarútvegsbyggðunum í kringum landið hafi í raun deilt kjörum með sjávarútveginum á heimaslóðum sínum. Er það ekki svo að þegar vel gengur í sjávarútvegi eru það einkum örfáar fjölskyldur og eigendur útgerðarfyrirtækjanna sem njóta þess en þegar verr gengur, þegar kvótinn er seldur, eins og hv. þingmaður nefndi dæmi um, til dæmis í Bolungarvík, og um það eru mýmörg dæmi, standa íbúarnir og verkafólkið uppi nánast án lífsbjargarinnar? Er það virkilega svo að íbúarnir deili kjörum? Deila þeir ekki bara tapinu en svo deila örfáir útgerðarmenn með sér hagnaðinum?