140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru ekki bara sjómenn sem njóta góðs af því þegar vel gengur í sjávarútveginum, það eru náttúrlega allir þeir sem búa í viðkomandi samfélögum. Það þýðir að fiskvinnslufólkið er með mun hærri laun og hefur þá frekar efni á því að skipta við þær verslanir og þá veitingastaði og nýta þá þjónustu sem til staðar er í viðkomandi byggðarlögum. Maður sér alveg gífurlegan mun á því hvernig staðan er núna og hvernig hún var fyrir tíu árum síðan.

Menn eru hins vegar enn þá að vinna úr þessu og mörg af þessum sveitarfélögum eru mjög skuldsett vegna þess að staðan var mjög erfið og er búin að vera erfið lengi vegna fólksfækkunar, eins og ég fór yfir í ræðu minni. Ég skal viðurkenna að ég hef velt fyrir mér hvort það sé réttara að hafa veiðigjaldið hóflegra og reyna frekar að finna leið til að tryggja að sem mest verðmæti verði eftir hjá starfsfólkinu sjálfu í greininni, (Forseti hringir.) til dæmis með því að skoða tillögur Sjómannasambandsins, til dæmis með því að tryggja að kjarasamningar séu til staðar (Forseti hringir.) tengdir nýtingarleyfunum og hvernig stjórnvöld geta stuðlað að því að fiskvinnslufólk fái líka hlutdeild (Forseti hringir.) í verðmætunum.