140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[13:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Í upphafi þingfundar í morgun fór ég fram á það að vegna ræðu minnar sem ég mun flytja á eftir, strax eftir hádegisverðarhléið, yrðu kallaðir til þingfundarins í dag hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra sem hafa báðir með sveitarfélögin og tekjuskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga að gera. Ég fer eiginlega fram á það, frú forseti, að hlé verði gert á þingfundi þangað til þessir hæstv. ráðherrar, sem nú hafa haft um þrjá klukkutíma til að koma sér til fundarins, mæta til að hlusta á ræðu mína og bregðast við þeim fyrirspurnum sem ég er með.

Þá ítreka ég líka beiðni sem ég bar fram strax í morgun, og þó nokkrir þingmenn hafa tekið undir, um að þeir þingmenn sem sitja í atvinnuveganefnd þingsins og skrifuðu undir meirihlutaálitið verði jafnframt boðaðar til fundarins, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sem eru ekki hér en hafa haft sig mikið í frammi um sjávarútvegsmál. Ég ítreka, frú forseti, (Forseti hringir.) að ég fer fram á að hlé verði gert á fundi þangað til hæstv. ráðherrar sem ég nefndi mæta til þingfundarins.