140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[13:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég kem hingað til að ræða um fundarstjórn forseta. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum haldið ræður í morgun þar sem við höfum beint fjölmörgum fyrirspurnum til þeirra hv. þingmanna og hæstv. ráðherra sem málið varðar. Ég óskaði sérstaklega eftir því að hæstv. fjármálaráðherra kæmi hingað og svaraði tilteknum spurningum. Hæstv. ráðherra kom reyndar í salinn en svaraði ekki þeim fyrirspurnum sem ég lagði fyrir hana og ég óska eftir því að henni verði gerð grein fyrir því að við óskum eftir upplýsingum um aðkomu hennar að þessum málum.

Í annan stað óskaði ég eftir því að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kæmi í salinn vegna þess að hún hefur verið með fullyrðingar um fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi sem hafa verið hraktar og ég vildi ræða þau ummæli hennar á Alþingi við þessa umræðu. Ég fer fram á það við frú forseta að hún láti hv. þingmann vita að nærveru hennar sé óskað.

Síðan er náttúrlega miður að ég skuli ekki geta sinnt störfum mínum sem þingmaður í Norðausturkjördæmi. Ég var boðaður á fund um atvinnuuppbyggingu í Fjarðabyggð hjá fyrirtækinu Alcoa en (Forseti hringir.) vegna þess að þing er að störfum í dag get ég ekki sótt þann fund. Okkur þingmönnum ber skylda til að vera á Alþingi (Forseti hringir.) þegar þing er að störfum.