140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[13:51]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það gleður mig að stjórnarandstæðingar skuli sakna mín svo mjög þá sjaldan sem ég vík úr þingsal undir þessari umræðu, og alveg hafði það farið fram hjá mér að kallað væri eftir nærveru minni hér. Sú ósk hlýtur að hafa komið fram meðan ég gekk frá skrifstofu minni og hingað inn. En ég velti hins vegar fyrir mér, frú forseti, þeirri áráttu þingmanna að kalla eftir viðveru einstakra þingmanna hér í sal. Við höfum hljóðnema og sjónvarpstæki í vinnuaðstöðu okkar og getum fylgst með umræðum um allt þinghúsið og í húsakynnum þingsins við Austurvöll og ég hélt að það væri réttur þingmanna að ákveða það sjálfir hvar þeir fylgdust með umræðu, svo framarlega sem þeir væru staddir við störf meðan þingfundur stendur yfir. Ég vil svolítið bera á móti þessum hvimleiða ávana að vera alltaf að vekja athygli á því hverjir sitja í sætum í þingsal því það vita þingmenn manna best að við fylgjumst með umræðum þó við séum ekki í líkamlegri nærveru í þessum sal.