140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að gagnrýna það að ekki skuli vera brugðist við þeirri beiðni minni að gera hlé á þingfundi meðan beðið er eftir því að hæstv. innanríkisráðherra geti verið hér og það sé kannað hvort hæstv. fjármálaráðherra ætli sér að vera við umræðuna í dag. Það er rétt hjá hæstv. forseta að hæstv. fjármálaráðherra kom hingað við í mýflugumynd, stoppaði stutt við og tók ekki þátt ...

(Forseti (ÁI): Hv. þingmaður. Hæstv. fjármálaráðherra var við umræðuna í morgun, nú er hæstv. innanríkisráðherra genginn í salinn og ég hvet hv. þingmann til að halda áfram ræðu sinni.)

Ég tók eftir því, frú forseti, að hæstv. innanríkisráðherra er kominn í salinn og ég þakka fyrir það. Ég ætla að fá að ljúka setningunni sem ég var byrjaður á þegar forseti braust inn í ræðu mína. Ég óskaði eftir því að fjármálaráðherra væri hér einnig þar sem málið tengist fjármálaráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu hvað varðar tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og þær tekjur sem ætlaðar eru af sjávarútveginum, bæði í formi tekjuskatts og útsvars sem rennur til sveitarfélaganna og þær breytingar sem á þessu verða vegna þessa frumvarps að mínu mati og svo merkilega sem það nú hljómar, að mati allra umsagnaraðila og sérfræðinga nema eins. Það eru bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ sem hafa einir umsagnaraðila aðra skoðun en allir hinir 70 sem hafa veitt umsagnir um þetta mál upp á margar blaðsíður og lagt fram skýrslur. Þeir fulltrúar hafa væntanlega farið yfir málið af kostgæfni og sent umsögn inn í atvinnuveganefnd þar sem þeir telja að þetta sé hið besta mál án þess að rökstyðja það mikið frekar. En látum það vera.

Ég vildi fá þessa hæstv. ráðherra til umræðunnar vegna þess að á árinu 2011 er greitt veiðigjald upp á 4,5 milljarða og væntanlega álíka upphæð á þessu ári ef ekki kemur til samþykktar á þessu frumvarpi. Á því sama ári greiðir sjávarútvegurinn væntanlega — það er ekki komið alveg á hreint en að bestu manna yfirsýn — um 5 milljarða. Það er umtalsvert hærra gjald en sjávarútvegurinn hefur verið að greiða á liðnum árum. Það er augljóslega vegna þess að sjávarútveginum gengur vel. Það sést í sjávarbyggðunum því það er ekki þannig, frú forseti, sem einstaka þingmenn halda fram, að þegar sjávarútveginum gengur vel séu það einstakar fjölskyldur í landinu sem fái allan arðinn. Til að mynda í Vestmannaeyjum þar sem menn hafa farið yfir þetta hafa arðgreiðslur til eigenda numið 1–2% af þeim hagnaði sem hefur orðið til í sjávarútveginum en fjármunirnir hafa runnið inn í samfélagið, m.a. með hækkandi launum og auðvitað meiri atvinnu. Þannig hefur arðurinn skilað sér með beinum og óbeinum hætti inn í samfélagið, til fólksins og til sveitarfélaganna.

Ríkisstjórnin fyrirhugar að hækka veiðigjaldið umtalsvert, langt umfram það sem allir sérfræðingar, umsagnaraðilar og sá sem hér stendur eftir að hafa verið í atvinnuveganefnd og kannað málið til hlítar, telja að sé hóflegt. Það er mjög óhóflegt gjald. Það mun hafa þau áhrif, hæstv. innanríkisráðherra, og ég hefði gjarnan viljað heyra álit hæstv. fjármálaráðherra á því líka, að tekjur sveitarfélaganna munu beinlínis minnka. Það er einfaldlega vegna þess að útsvarsgreiðslurnar munu lækka og einnig vegna fyrirhugaðra breytinga á stjórn fiskveiða samkvæmt hinu frumvarpinu sem munu hafa umtalsverð áhrif í þá átt að draga hluta af kvóta eða aflamarki úr þessum byggðum. Það getur líka orðið til þess að byggðirnar þurfi að kaupa það dýrum dómum til baka. Þá munu verða minni fjármunir til að greiða laun starfsfólks og sjómanna og atvinnan minnkar. Það er einfaldlega verið að taka hluta af vinnunni frá fólkinu og færa hana eitthvert annað, frá fólkinu sem vinnur þessi störf í dag. Þannig mun samfélagið fá minni fjármuni beint til sín og mun lægri útsvarstekjur í gegnum sveitarfélögin eins og umsagnir sveitarfélaganna allra bera með sér, alveg sama hvar í flokki þeir standa sem mynda meiri hluta sveitarstjórna eða minni hluta í þeim samfélögum. Allir eru sammála nema reyndar eins og sagt hefur verið áður, samfylkingarfélagið í Reykjanesbæ. Allir eru sammála um að þetta muni hafa mjög neikvæð áhrif á sjávarbyggðirnar hringinn í kringum landið, lækka tekjurnar og verða til þess að samfélögin muni aftur fara að líta út eins og þau gerðu á árunum 2002–2007 þegar fækkunin var gríðarleg, eins og sjá má í skýrslu sem Byggðastofnun skilaði í síðustu viku.

Því er mjög nauðsynlegt að vita, frú forseti, hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórninni, þar á meðal af hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, hvernig eigi að bregðast við því að sveitarfélögin fái minni skerf af þessum tekjum vegna þess að veiðigjaldið mun hafa bein áhrif til lækkunar á tekjuskatti. Það má líka spyrja hvernig fjármálaráðuneytið hefur reiknað áætlaðar tekjur, sem eru þá forsendur fjárlaga, og með hvaða hætti samspil þessara tveggja skatttekjustofna verður. Eins og ég sagði eru opinberir skattar, veiðigjöld og tekjuskattar á árinu 2011 ekki 4,5 milljarðar heldur 9,5 milljarðar sem er umtalsvert hærri tala en menn hafa verið að ræða um. Það þarf að gera sér grein fyrir samspili þessara hluta og hvernig menn ætla að bregðast við þessum vanda. Ætla menn til dæmis að nota hluta af veiðigjaldinu til að hækka framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga? Hefur sú hugmynd verið rædd í innanríkisráðuneytinu? Það er eitt af því sem þarf að skoða og ég vildi gjarnan heyra álit hæstv. ráðherra á þessu.

Síðan er spurning um hvað sé hóflegt gjald. Margir stjórnarliðar hafa komið í pontu og sagt sem svo að þeim finnist 15 milljarðar bara hóflegt gjald, þrátt fyrir allar umsagnirnar sem segja hið gagnstæða, þrátt fyrir að sérfræðingar sem atvinnuveganefnd fékk til verksins segi að þeir standi við niðurstöður sínar. Það gera þeir þrátt fyrir þær tilslakanir sem sannarlega hafa verið gerðar frá því að upphaflega voru lagðir til 24–25 milljarðar í veiðigjöld. Þá er ég ekki að gleyma því að út úr frumvarpinu mátti lesa að um 50 milljarða og 140% skatt væri að ræða. Það voru náttúrlega bara mistök sem menn gera þegar þeir eru að flýta sér, undirbúa sig ekki nægilega vel og koma ekki með mál nægilega vel undirbúin til þingsins í samráði við þá sem hefðu getað bent á þessa svakalegu skekkju.

En hvað er hóflegt gjald? Er ekki rétta leiðin til að nálgast svarið við því að hafa samráð við útgerðina sjálfa um hvað sé hægt að gera? Er það ekki hófleg og skynsöm leið að fara til sveitarfélaganna og hafa þau með í ráðum til að átta sig á því samspili sem þarna verður á milli? Að menn komist að því hvernig meginþorri útgerðarfyrirtækja í landinu, segjum 90%, geti staðið undir þessu? Þá er ég að vísa til þess að auðvitað standa einhver útgerðarfyrirtæki svo illa að þau þurfa á öðrum meðulum að halda en einfaldlega bara góðæri sem svo sannarlega ríkir í sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn hefur lýst því yfir að hann sé tilbúinn til að greiða hærra gjald á næsta ári eða næstu tveimur árum en hann væri almennt tilbúinn til á þessum erfiðu árum. Er það ekki skynsöm og hófsöm leið að nálgast málið þannig? Ég hefði haldið það.

Ég held að það sé rétt að taka umræðuna út úr þeim farvegi að hér komi þingmenn upp í pontu, alveg óháð því hvort þeir hafa lesið umsagnirnar eða ekki, hvort þeir trúa þeim eða ekki, og setji puttann upp í loftið og segi: Mér finnst 15 ágætt. Mér fannst 25 gott en mér finnst 15 ágætt. Það hlýtur að eiga að fara aðra og upplýstari leið til að komast að því hvað sé hóflegt gjald, undir hve háu gjaldi menn geti staðið og haldið áfram að byggja upp öflugustu atvinnugrein landsins. Þegar vel gengur í sjávarútvegi þá gengur vel í sjávarbyggðunum. Það gildir auðvitað um allar atvinnugreinar sem eru undirstaða í samfélaginu. Ef þeim gengur vel, gengur samfélaginu vel. Það hlýtur að vera miklu skynsamari leið að fara þá leið. Það er líka rétt sem hefur komið fram að það er ekkert ofsalega langt á milli flokka. Allir eru sammála um að leggja eigi á hóflegt veiðigjald. Við þurfum bara að finna út hvað sé hóflegt gjald og átta okkur síðan á því hvaða áhrif sú útfærsla sem þingið leggur til mun annars vegar hafa á útgerðina og hins vegar á samfélögin og einnig hvaða tekjum ríkið þurfi á að halda til að komast í gegnum mestu kreppuna og standa undir grunnskólum, heilbrigðiskerfinu og öðru í þeim dúr. Það á ekki við að stunda pólitískar ofsóknir eða pólitískar tilraunir (Forseti hringir.) til að stýra landinu. Við verðum að standa saman, (Forseti hringir.) við erum öll á sama báti og við eigum að komast út úr vandanum með það í huga.