140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um sveitarfélögin í yfirgripsmikilli ræðu sinni. Af því að hæstv. ráðherra sveitarstjórna gengur hér fram hjá dettur mér í hug að spyrja: Er hv. þingmanni kunnugt um eitthvert sveitarfélag sem er hlynnt þeim frumvörpum sem við ræðum hér?

Hv. þingmaður kom einnig inn á hvað væri hóflegt verð fyrir auðlindina. Þá spyr ég: Hvernig ákveðum við hóflegt verð á brauði? Það er nefnilega gert út frá markaðnum. Hvers vegna í ósköpunum reyna menn ekki að hugsa út fyrir rammann og finna sambærilegt kerfi fyrir auðlindina, þ.e. að koma með markað fyrir þessar auðlindir?

Á næsta ári munu verða greiddar 38,63 kr. fyrir hvert kíló þorskígildis í botnfiskveiðum og 42,58 kr. fyrir hvert kíló af loðnu og öðrum uppsjávarfiskum. Hvað gerist ef markaðsaðstæður breytast mikið á næsta ári, ef verðfall verður á sjávarafurðum í Evrópu vegna ástandsins þar og menn þurfa að sætta sig við miklu lægra verð og arðsemi fyrirtækjanna lækkar verulega? Hvernig mætast endar þá?