140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:18]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir ræðuna, sérstaklega fyrir það að staðfesta í ræðu það sem við öll höfum haft miklar áhyggjur af, þ.e. af hinni gríðarlegu byggðaröskun sem var á árunum 2002–2007. Er rétt að hugleiða hverjir stjórnuðu þá landinu og hvernig ástandið var samanborið við það sem gerðist eftir hrunið.

Það er líka mjög athyglisvert að skoða það að við erum að fara með sjávarútveginn í gegnum besta ár í áratugi á árinu 2011 undir þeirri ríkisstjórn sem nú liggur undir ásökunum um að kvelja atvinnulífið. Það þarf líka að koma fram.

Það var enn fremur mjög forvitnilegt að heyra hv. þingmann skilgreina skýrt við hvað ætti að miða varðandi hóflegt gjald: Það á LÍÚ að meta, þ.e. útgerðin. Ég er algjörlega ósammála því. Við höfum hér verið að glíma við 20% tekjufall eftir hrun. Við vorum með gríðarlega þenslu fyrir hrun og ekki ætlum við að reyna að byggja upp aftur með svipuðum hætti þannig að við verðum að horfast í augu við það að við erum með algjörlega nýjar aðstæður.

Það er svolítið dapurlegt að fá sem velferðarráðherra ályktanir frá sveitarfélögum og jafnvel frá útgerðarfélögum eða stórfyrirtækjum þar sem beðið er um 10–15 milljónir til að halda úti skurðstofum í Neskaupstað eða annað slíkt og svo skuli varnarbaráttan vera hjá stjórnarandstöðunni um að þá peninga skuli alls ekki leggja inn í ríkissjóð, það sé betra að einkafyrirtækin fái að ráðstafa þeim sjálf. Það er þetta sem slagurinn er um í augnablikinu, þ.e. (Gripið fram í.) hvar við ætlum að byggja upp íslenskt samfélag og á hvers forræði það sé. Mig langar að heyra sjónarmið viðkomandi þingmanns um það.

Að auki er sagt að verið sé að skerða um 1.700–1.800 þús. á mann í Neskaupstað eða á Suðurlandi, og ég spyr: Hvaðan koma þær upphæðir fram í sjóðum sveitarfélaga, vösum almennings og útsvarsgreiðslum í dag?