140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ágætt að hæstv. ráðherra byrjaði á því að velta því fyrir sér, og það var rétt, að í aðdraganda hrunsins og bóluhagkerfinu átti landsbyggðin undir verulegt högg að sækja, ekki síst sjávarbyggðirnar. Hæstv. ráðherra benti á það hverjir stjórnuðu. Ég bendi bara hæstv. ráðherra á að sú stefna sem þá var uppi í Seðlabankanum um það hvernig gengi krónunnar væri stýrt og sú peningastefna sem verið hefur er nákvæmlega sama stefna og er uppi núna. Þar voru þeir sömu og sömdu þá stefnu sem stjórnað er eftir í dag. Hún er nákvæmlega eins, hæstv. ráðherra, þannig að við erum á nákvæmlega sömu leið. Það er auðvitað algjörlega galið og ég tek undir það.

Það er íslenska krónan sem hefur hjálpað útflutningsgreinunum, þ.e. möguleikinn að hún geti sokkið og að hún hjálpar útflutningsgreinunum að búa til tekjur. Meðal annars þess vegna gengur sjávarútvegurinn vel en hann gengur líka vel vegna kvótakerfisins sem við settum á fyrir margt löngu. Flokkar sem hafa komið að ríkisstjórn síðustu áratuga hafa stutt það dyggilega að því yrði viðhaldið. Það hefur byggt upp fiskstofnana, eins og hæstv. ráðherra blessunarlega veit, og við erum að fá ágóða af því núna. Tekjur þeirra sem búa í samfélögunum eru beintengdar því og þegar launin hjá fólkinu hafa lækkað og lífskjörin minnkað vegna þess að gengið hefur sokkið er eina leiðin okkar út úr þessu sú að auka atvinnuna, vinna meira. Það er sú áþján sem við þurfum að leggja á okkur og höfum alltaf þurft. Við gerum það gjarnan en þá þurfum við að hafa tækifæri til þess. Það tækifæri er núverandi ríkisstjórn að taka úr sjávarbyggðunum með því að draga úr kvótanum á stöku stað, hækka álögurnar, færa fjármunina til ríkisins og telja sig síðan þess betur umkomna að ráðstafa peningunum en sjálft fólkið í landinu.