140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur hefur ekki talað hér fyrir hönd almenningsins og sagt að það séu einhverjir aðrir annars staðar, ég veit ekki hvernig — (Gripið fram í.) Já, það er akkúrat hin mismunandi pólitíska sýn, hæstv. velferðarráðherra. Er betra að allir peningarnir séu teknir af fólkinu og ríkisstjórnin deili þeim síðan út, jafnvel löngu áður en búið er að samþykkja að hækka skattana? (Gripið fram í.) Það er mjög sérkennilegt.

Varðandi það hvar þeir peningar eru verð ég að varpa þeirri spurningu aftur til hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar. Ef frá upphafi hefði verið farin sú leið framsóknarmanna að byggja upp atvinnulífið strax í kjölfar hrunsins en ekki staðið gegn hverri einustu atvinnuuppbyggingu sem hér hefur verið lögð til, hvort sem er í orkugeiranum eða annars staðar, haft sjávarútveginn í óvissu nú í þrjú ár, væri staðan önnur. Þá væru hér fleiri þúsundir manna með vinnu, með tekjur, hagvöxturinn væri til og við værum með hærri útflutningstekjur, hærri skatttekjur og samfélagið hefði það betra. Þar er grundvallarmunurinn.