140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði hér að hæstv. fjármálaráðherra hefði verið þaulsætinn í salnum síðan í morgun. Ég get ekki vottað það vegna þess að ég hef sjálf verið inn og út úr salnum, en mér heyrðist af viðbrögðum þingmanna áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta að svo hefði ekki verið. En gott og vel, hæstv. ráðherra hefur getað verið í öðru herbergi í húsinu og fylgst með umræðunni, en það var ekkert endilega verið að biðja hæstv. ráðherra um að koma hingað og sitja þögul. Það var kallað eftir sjónarmiðum hæstv. ráðherra. Við erum að ræða veiðigjöld og skattamál, ræða mál sem snerta málaflokk hæstv. fjármálaráðherra gríðarlega mikið, og hæstv. ráðherra hefur ekki tekið til máls í þessari umræðu. Mér finnst það miður. Mér finnst líka miður að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ekki svarað hér þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann (Forseti hringir.) þannig að ég tek undir með þingmanninum.

Nú er kominn mjög réttsýnn og ákveðinn forseti í stólinn. Ég endurtek það ef hæstv. forseti skyldi hafa misst af því áðan þegar við fórum fram á það, frú forseti, að við viljum fresta þessari umræðu (Forseti hringir.) vegna þess að hér er verið að mismuna þingmönnum eftir því hvort þeir eru hæstv. (Forseti hringir.) ráðherrar eða hv. þingmenn upp á hvort þeir geti sinnt skyldustörfum sínum í kjördæmum sínum.