140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, það væri ágætt að fá að vita um áform forseta varðandi þennan þingfund.

Hvað varðar hins vegar andsvarið vil ég í fyrsta lagi þakka þingmanninum kærlega fyrir ræðuna. Það sem mér þótti mjög áhugavert var í fyrra hluta ræðunnar þegar hún ræddi skoðanakannanir og hvernig stjórnarflokkarnir eru að mælast, ekki hvað síst Vinstri grænir. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að ræða það í tengslum við þetta mál vegna þess að ef maður skoðar frumvarpið um veiðigjöldin er eins og hv. þm. Jón Bjarnason hefur bent á búið að hreinsa út helstu áherslumál Vinstri grænna, byggðatenginguna. Hv. þingmaður hefur ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni lagt fram breytingartillögu sem byggist á frumvarpi sem var lagt fram og samþykkt af ríkisstjórn, væntanlega þá þingflokkum stjórnarflokkanna, um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Í því frumvarpi kom fram í 28. gr. ákveðin skipting á veiðigjaldinu, væntanlega til að koma til móts við þær miklu byggðaáherslur sem má finna í ályktunum Vinstri grænna og líka í stjórnarsáttmálanum sjálfum eða yfirlýsingu eins og þau vilja kalla sáttmálann.

Það sem ég hefði áhuga á að heyra frá þingmanninum er hvort hún tekur undir það að búið sé að hreinsa þessar byggðaáherslur út úr frumvarpinu. Hver er afstaða þingmannsins til þessarar breytingartillögu sem þeir hafa núna flutt sem er í samræmi við 28. gr. úr í þáverandi fiskveiðistjórnarfrumvarpi?